Fram og tilbaka

 Jeddah 04.012.07

     Nú var ég búinn að hvíla mig ágætlega eftir Jakarta ævintýrið og tilbúinn í slaginn aftur, settur á flug til Dhaka Bangladess um kvöldið.  Þá tók vél okkar upp á því að bila, nú þurfti að finna leið til að fara fram og til baka, það má með því að hafa tvær áhafnir þetta er 15 klst. flug fram og tilbaka, einnig þarf að taka hluta af farþegarými og nota sem hvíldaraðstöðu.  Eftir miklar seinkanir var lagt af stað í morgunsárið þann 4. des.  Flugið gekk vel (flugleiðin tók okkur suður af Muskat (Oman) Karachi (Pakistan) Bhopal (Indland) Kolkatta (Indland) og komum við til Dhaka um kvoldmatarleytið að staðartíma.  Í áhöfninni vor þeir feðgar Siggeir Sverrisson flugvélstjóri og Siggeir Siggeirsson flugmaður (sonur Siggeirs vélstjóra) ásamt mér Lance Russel og Mac.  Þegar komið var til Dhaka fór allt á fullt við að snúa vélinni við 450 manns út og 470 manns inn og 20 tonn af frakt.  Það hafði lekið töluverð olía af hreyfli númer 4. og fór annar vélamaðurinn að skoða það hinn fór í að setja 85 tonn af eldsneyti á vélina.  Á flugvellinum er gróðursæld og höfðu vallarstarfsmenn verið að slá gras og hafði nokkuð af því farið í hreyfla vélarinnar þegar að við notuðum knývendi (reverse thrust) í lendingu. þannig að vélamennirnir ákváðu að "sópa" hreyflana með strákústi og virkaði það vel.  Á bakleiðinni fór ég aftur í að leggja mig, þar var áhöfn frá Saudía að ferðast með okkur ein flugfreyjan hafði verið að gifta sig og var myndasýning í gangi, það var ljómandi skemmtilegt að skoða og heyra lýsingar frá þessu brúðkaupi.  Það hafði verið ákveðið að lenda í Dammam og skipta um áhöfn á bakaleiðinni,  því þó að tvær áhafnir væru um borð var vakttíminn of langur ef farið væri Jedda Dhaka Jeddah.   Þegar komið var til Dammam óskaði Saudía eftir því að við héldum áfram sem farþegar til Riyadh og síðan til Jeddah, ég sagði þeim að það kæmi ekki til mála við værum búnir að vera vakandi í rúman sólahring og yrðum að komast inn á hótel, eftir smá stapp gekk það eftir og við fórum á Sheraton í Dammam og lögðum okkur og ferðuðumst svo "heim" til Jeddah kvöldið eftir.


Heimsreisa á Mettíma

     Þegar að við komum heim frá Fes (Marokko) var okkur tjáð að flugvél hjá Saudía hefði bilað og 500 Pílagrímar væru fastir í Jakarta í (Indónesíu).  Við fórum í Koju og lögðum svo af stað með tóma vél til Jakarta seint um kvöld 30 nóv, ferðinn sóttist vel enda smá meðbyr.  Farin var svonefnd norður leið, yfir Arabíuskaga komið yfir Indland suður af Mumbai(Bombai) og inn á Bengalflóa yfir Chennai(Madrass) þaðan til norðurenda Súmötru(Indónesíu) og suður til Jakarta, ferðin tók okkur rúma 9 klukkutíma.  Veðrið á leiðinni var nokkuð gott þrumustormar yfir Súmötru og Jövu smá ókkyrð yfir Indlandi.  Þegar til Jakarta var komið var farið beint uppá hótel enda flestir farþegarnir nú þegar mættir og því málið að leggja sem fyrst af stað aftur til Jeddah.  Stöðvarstjóri Saudía var full bjartsýnn og vildi vekja okkur aftur eftir 10 klst svefn, ég tjáði honum að það myndi ekki ganga, samdist okkur svo um brottfaratíma.  Ég fékk mer að borða og fór svo að sofa, þetta var um eftirmiðdagsleiti, við ætluðum að leggja af stað til baka í morgunsárið.  Eftir átta tíma svefn gat ég ekki sofið lengur, ég fór þá að skoða þessa flugstj. svítu og fann nuddbað með sjónvarpi, setti ég það af stað og lét renna í freyðibað með baðsöltum, þetta var mjög afslappandi.  Þegar að ég var að sofna í baðinu hringdi starfsmaður á flugvellinum og sagði mér að þetta væri Wake up call(ræs!) og nú skildi leggja af stað, þetta var ekki skv. samkomulagi okkar (hann hringdi allt of snemma) þannig að ég bannaði honum að vekja áhöfnina og hlýddi hann því.  Stór hluti áhafnarinnar voru Indónesar (og ekki komið heim lengi) þannig að þeir höfðu verið að heimsækja ættingja og vini og mættu því illa sofnir, en enginn kvartaði þó, enda dugnaðarfólk, ánægt með að hafa hitt fjölskyldur sínar.  Þegar að við komum útá völl kom í ljós að við skoðun um nóttina hefði fundist Vökvaleki á bremsukerfi vélarinnar, við hann varð að gera fyrir brottför.  Nú hófst kapphlaup við tímann, gera varð við vélina koma farþegum, farangri og eldsneyti um borð á 3 klst.  Áhöfnin skiptist á að fara í koju á meðan þannig að alli fengu smá kríu.  Við komusmt loks af stað og flugu syðri leið til baka, Colombo(Sri Lanka), Trivandrum (Indland) og svo Arabíuskagann sunnanverðann.  Flugum í gegnum nokkur bönd af þrumustormum á Bengalflóa en síðan hæglætisveður.  Það voru þreyttir menn og stúlkur sem komu heim í eftrimiðdaginn 2. des eftir langt ferðalag.

Vinnudagur hjá Saudía

Jeddah 30.11.2007      Mac vélstjóri var að tala um á leiðinni í gær hve árið 2007 hefði liðið hratt, ekki frá því að það sér rétt hjá honum.  Búinn að vera fljúga á fullu, tók smá Afríku rúnt til Fes í Marokkó, mjög fallegur staður en stutt stop.  Flugvélstjórinn var frá Suður Afríku og vegna aðskilnaðarstefnu þeirra fyrr á árum var honum meinuð innganga inní landið, ég var með nokkur kíló af ferskum döðlum frá Madinah (uppáhald í Norður Afríku) skipti á þeim og 48. klst. vísa fyrir kallinn, þannig að hann komst inn.       Var vakinn kl 0450 af starfsfólki hótelsins að beiðni Saudia (pick up), hringdi útá flugvöll og spurði hvenar vélin væri væntanleg, kl 0800.  Það er 15 mín. akstur útá völl þannig að ég sendi áhofnina aftur í koju og vakti síðan alla kl 0700.  Þá var hótelstjórinn svo vandræðalegur að hann heimtaði að allir myndu þyggja morgunmat (ekki það að ég væri eitthvað reiður útí hann og við ætluðum hvort eð er að fá okkur smá brekka") en ok þá byrjaði hann að heimta að við fengjum okkur hitt og þetta sem hann hafði útbúið......ferska djúsa osfv. þetta reyndist allt ljómandi gott og við höfðum mikið gaman af tilburðum hótelstjórans sem við kvöddum svo með virktum.   

     Við komum okkar útá flugvöll beið þar stöðvarstjóri Saudía á barmi taugaáfalls, hún vildi vita hvort við þyrftum eldsneyti, hvort farþegarnir mættu koma um borð, hvernig við ætluðum að ræsa hreyfla vélarinnar með bilað APU og hvort við kæmumst í loftið með þennan is á vængjum vélarinnar!  Ég skoðaði málið og gat tjáð henni að við þyrftum ekkert eldsneyti, það væru 75.000 kg á tönkum vélarinnar, meðalhiti þessara 75 tonna væri vel undir frostmarki og skýrði það frostið á vængjunum, þetta myndi bara bráðna af á meðan 460 pílagrímar kæmu sér fyrir um borð.  APU er "aukamótor" í stéli vélarinnar sem knýr rafkerfi og þjappar loft fyrir loftræstingu og startara aðalmótornna, á meðan slökt er á fjórum aðalmótormum.  Ég gat sagt henni að aukarafstöðin (APU) væri ekki biluð, bara köld eftir flugið til Fes og myndi fara í gang eftir svona 15 mín. sem hún gerði, allt gekk skv. áætlun og við rúlluðum í loftið 10 mín á undan áætlun í blíðskaparveðri og nutum landslagsins í brottfluginu.    

    Eftir lendingu i Madinah áttum við (áhöfnin 24 persónur) að ferðast til Jeddah, en þegar þangað var komið gaf starfsmaður Saudía sig á tal við mig og spurði mig hve mikið eldsneyti ég vildi á vélina til Riyadh, ég sagði honum að ég væri ekki á leiðinni þangað skv. mínum upplýsingum, ég og vélstjórinn vorum þeir einu um borð að ganga frá og bíða eftir að afhenda vélina viðhaldsdeild eða næstu áhöfn (B747 má ekki skilja eftir án áhafnar eða viðhaldsstarfsmanns með aukarafstöðina "APU" í gangi).  Hann hringdi í starfsmann Atlanta sem bað mig ef ég mögulega gæti flogið vélinni til Riyadh, það var ekkert mál af minni hálfu átti eftir 6 klst. af leyfilegri flugvakt og flutíminn til Riyadh aðeins 1 klst., nú var bara að finna aðstoðarflugmanninn (hann er nefnilega að slá sér upp með einni af flugfreyjunum).  Á meðan starfsmaður Saudía leitaði aðstoðarflugmanninn uppi (fannst með "vinkonu" sinni inní flugstöð) gerði vélstjórinn allt tilbúið og ég gekk frá flugplaninu, síðan var lagt í hann til höfuðborgarinnar Riyadh.  Það var flugvél frá Royal Brunei á undan okkur á leiðinni, sem er svo sem ekki til frásögu færandi, nema fyrir það að flugmaðurinn á henni var kona, henni var alltaf svarað Sir af flugumferðarstjórum í Saudí Arabíu, hun svaradi alltaf til baka "thank you Madame" fannst það gott hjá henni! 

      Ég kom "heim" í villuna mína í Jeddah kl 0300, kisarnir mínir tóku á móti mér, fór að sækja kattarmat, eitthvað lítið eftir af honum...........fann út að á meðan ég er lengi í burtu gefur hreingerningarmaðurinn kisunum að borða ha haha

 


Flug flug flug

     Búinn að fljúga mikið uppá síðkastið, Manila stopp í 4 daga, Dhaka stopp í 4 daga, á morgun er það Medinah minimum stop og síðan Fez í Marokkó.  Þessi flug hafa gengið ljómandi vel, lítið um bilanir osfv.

      Þegar að við fljúgum til Manila förum við fyrst til Damam eða Riyadh og gistum þar, flugtíminn þaðan er ekki nema 9 til 11 klst. eftir vindi.  Lentum á leið til Manila síðast í Sidr (Tropical Cyclone) sem olli miklu manntjóni í Banglades, tók nokkrar myndir af honum og eru þær á  myndasíðunni.  Við fórum 250-300 Km suður af leið okkar til þess að lenda ekki í klóm Sidr.


Lífið í Jeddah ofl

     Hérna er allt í ljómandi standi, búinn að vera í fríi í tvo daga.  Sundlaugarferðir og veggjatennis með Orra, ekki amalegt það.  Fór í bæinn í gær að skoða úr fann ýmislegt sniðugt, það er alltaf hægt að finna sniðugt dót hérna.  Orra vantaði sólvörn og ég var á höttunum eftir sandölum fyrir sundlaugarferðirnar, við erum eins og gamlar kellingar ha ha ha. 

     Orri átti afmæli í síðustu viku en ég var í Manila, héldum pítsu partí á sunlaugarbarnum þegar að ég kom heim, fórum síðan heim að reykja vindla og drekka kók með klaka........ekkert áfengi hérna þannig að við verðum að reiða okkur á aðra ávanbindandi ósiði. 

     Búinn að vera fljúga til Manila frá Damam og tilbaka til Riyadh uppá síðkastið, þetta er skemmtileg leið flugtíminn u.þ.b. 9 klst. gott útsýni flogið yfir Furtsdæminn, Pakistan, Indland, Yangoon (Burma), Tælandi, Laos og Víetnam.  Í Manila er farið út að borða, kannski smá rauðvín með matnum, Filipseyingar brugga góðan bjór sem rennur ljúft niður í hintanum og rakanum, góð tilbreyting frá konungsdæminu, annars er rigningartíminn að bresta á þarna austurfrá, helli rigning þarna í eftirmiðdaginn.  Næsta stop er í Singapúr, ekki komið þangað í mörg ár, ætla að skella mér á Raffles og smakka Singapore sling eftir margra ára hlé! 

    Stoppinn í Damam eru ágæt hotelið fínt, og gott að borða í nágreninu, Líbanskur osfv.  Rétt hjá hótelinu er góð bókabúð svo þetta hefst alveg og áhöfnin hvílist vel (ekki mikið annað hægt að gera).

     Það er mikið um ketti í hverfinu hérna, fór að gefa þeim um daginn, nú mæta svona 10 "vinir" tvisvar á dag í mat ha ha ha, kattarmatur kostar 40 krónur dósin hérna og svo fá þeir afganga, ólíkt dekur fitubollunum hennar mömmu heima á íslandi borða þessir flækingar allt.


Kominn í Hajj

B747 300     Eftir nokkura ára fjarveru ákvað ég að lána fylgismönnum Múhamed spámanns starfskarafta mína aftur (langaði líka að fljúga bumbunni eftir 3 ára pásu). Eftir endurþjálfun sem tók u.þ.b. mánuð var ég byrjaður að plægja akra háloftana fyrir Saudia Arabian Airlines. Það er ljómandi gaman að fljúga hérna, búinn að fara til Manila,Kartúm,Cairo,Amsterdam,Dubai og Milano svo nokkrir staðir séu taldir.

     Vélarnar sem við fljúgum núna eru af gerðinni B747-300 kraftmiklar og vel útbúnar. Pílagríma flugið hefst fyrir alvöru 16.nóv og renni ég á vaðið með því að fara frá  Singapúr til  Jeddah þann 17.nóv.   Það var gaman að hitta fólkið hérna aftur eftir 3 ára fjarveru, alveg einstaklega gott fólk sem strafar hér og tengsl okkar "flugdýra" eru sterk, búum og vinnum saman.

      Þar sem annar fjölskyldumeðlimur (pabbi) vann hérna líka er ég oftast kallaður "son of Heidar" það fór víst aðeins meira fyrir honum heldur en stráknum ha ha ha. Það byðja allir að heilsa þér pabbi og þá sérstaklega Lóló, Erna Misbach, Nabíl og Sara.


Due Regard

    Rússnesk herflugvél í júlí síðastliðnum

      Valdimar Ólafsson fyrrverandi Yfirflugumferðastjóri Íslands, kenndi okkur sem ungum atvinnuflugmönnum að "State Aircraft shall show due regard for civilian air traffic"   Kannski að við ættum að senda Valdimar sem sendiherra góðvildar til Rússlands að kenna þeim þessi grundvallar atriði í flugreglum og almennri kurteisi.

     Annars skal ég viðurkenna að það er nú bara notarlegt að hafa Rússnesku Birnina sveimandi hérna aftur, kannski að bjóða þeim að lenda og selja þeim eldsneyti. 


mbl.is Ekkert meiriháttar deilumál við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er íslenskur Atvinnuflugmaður

     Ég melda mig aldrei veikan, hvað svo sem það þýðir, en verð eins og aðrir veikur (þó mjög sjaldan).  Ég ber hag flugfélags sem ég starfa hjá fyrir brjósti.  Ég tek skyldur mínar við farþega alvarlega og geri allt sem í mínu valdi stendur til að koma þeim á áfangastað á réttum tíma 

     Ég er ekki í neinum aðgerðum, ég vel að vinna ekki á frídögum og hefur það ekkert með Félag Íslenskra Atvinnuflugmanna að gera heldur mannréttindi.  Ef seinkanir verða á flugi er það vegna þess að ekki eru nógu margir starfsmenn í vinnu en ekki vegna "aðgerða".

    Að vinna eftir kjarasamningi og taka sér frí á frídögum eru ekki "aðgerðir".  Sú staðreynd að stéttarfélag þurfi að taka þessa hluti fram þ.e. að félagsmenn skuli vinna eftir kjarasamning og vinna ekki á frídögum segir mikið um það óefni sem stétt okkar er komin í vegna samstarfsvilja og hjálpsemi við atvinnurekendur.


Flugkoma á Hellu 2007

 

átta þristur 1 ÞRISTUR OG ÁTTA 60 ÁR Í INNANLANDSFLUGI                                                                                                                Skellti mér á Hellu að beiðni Flugmálafélagsins á De Havilland DHC 106 TF-JMB sem Flugfélag Íslands lánaði til fararinnar.  Með í för var Páll Sveinsson Douglas DC 3 TF-NPK eða kannski C 47 sem var heiti þessarar vélar í Ameríska hernum þar sem hún hóf feril sinn.

     Flugstjóri á Þristinum í þessari ferð var Björn Thoroddsen, til gamans má geta að á sínum tíma þegar Björn var flugmaður hjá Loftleiðum var hann lánaður á þristinn til Flugfélags Íslands á sumrin, þessi félög voru í samkeppni en tíðarandinn annar þá!

    Það mætti kannski segja að þarna komi saman gamli og nýi tíminn og jafnvel framtíðin því Flugfélag Íslands mun að öllum líkindum nota Dash 8 til þess að taka við af Fokker 50 sem þjónað hefur Flugfélaginu dyggilega síðan 1992.  Páll Sveinsson var skráður á íslandi 21. ágúst 1946 þá sem TF-ISH hjá Flugfélagi Íslands og Dash 8 TF-JMB var skráð í ágúst árið 2006 einnig hjá Flugfélaginu.

     Hver er þá munurinn á þessum vélum? Þær eru ekki svo ólíkar þó að 60 ár skilji þær að, báðar gríðarlega sterkar og áreiðanlegar, geta athafnað sig á stuttum og grófum brautum, þristurinn tekur allt að 32 farþegum fer í loftið fullhlaðinn 12.700 kg farflugshraði 271 km/klst. knúin áfram af tveimur 1200 hestafla radíal hreyflum.  Dash tekur allt að 39 farþega, vegur 16.550 kg full lestaður farflugshraðinn er 480 km/klst, knúinn tveimur 2250 hestafla skrúfuþotu hreyflum.  Þessar vélar eiga það líka sameiginlegt að vera eftirlæti þeirra sem fljúga þeim, kannski að við dash menn förum bara að kalla dashinn okkar "áttu" í stíl við forvera okkar sem kölluðu DC 3 "þristinn".

    Guðmundur "Geirfugl" náði þessari skemmtilegu mynd af þeim saman á Hellu laugardaginn 14. júlí.  Hann og við höfum kannski ekki gert okkur grein fyrir því þá hve merkilegt þetta samflug var í sögu Innanlandsflugs á Íslandi!


TF SIF

DSCN1609TF SIF Mætti henni í Skagafirði jún 2006 flugstjóri Sifjar var Sigurður Ásgeirsson.

     Það er mér mikið í mun að TF SIF verði varðveitt á virðingarfullan og viðeigandi hátt.  Þetta umrædda loftfar hefur haldið Ægishjálmi yfir áhafnir sínar og í reynd þjóðarinnar í ríflega tvo áratugi, hún er fyrsta alvöru björgunarþyrla sjálfstæðrar þjóðar og því mikil gersemi.  Fegurð og mikilvægi þessa loftfars er ekki síst falin í þeirri staðreynd að hún er tákn okkar íslendinga og framsækni okkar, því þrátt fyrir smæð er hér stórhuga þjóð.

     Mín tillaga er sú að TF SIF verði komið fyrir á Flugsafninu á Akureyri þar sem hún getur borið vitni framsækni, hugrekkis og drengskapar fyrir komandi kynslóðir.  Fólk á öllum aldri man eftir þessu loftfari heimtandi fólk úr háska eða fagnandi tyllidögum eins og 17. júní og sjómannadegi. 

     Þessa gersemi ber að varðveita og sögu þeirra sem störfuðu við hana.


mbl.is TF-Sif komin á land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband